Enn eiga um 1.600 fyrrverandi viðskiptavinir Icesave í Bretlandi eftir að sækja um að fá fé sitt endurgreitt en lokafrestur til þess rennur út um næstu mánaðarmót.

Breskir fjölmiðlar hafa nú í október verið duglegir við að minna sparifjáreigendur á að enn sé möguleiki á að endurheimta fé sitt af reikningunum. Vart þarf að rifja upp upphaf þessa máls en sem kunnugt er ákváðu bresk stjórnvöld að endurgreiða allar upphæðir af Icesave reikningunum til innistæðueigenda. Viðskiptavinir Icesave þurfa hins vegar að fylla út og skila þar til gerðu formi og skila til breska fjármálaeftirlitsins.

Sem fyrr segir rennur fresturinn út þann 30. október en í frétt BBC í dag kemur fram að stærstur hluti innistæðueigenda, sem enn á eftir að endurheimta fé sitt, hafi átt mjög lítið inn á reikningunum – oft minna en 20 pund.

Þá hefur BBC eftir talsmanni breska fjármálaeftirlitsins að þeir sem áttu mjög litlar upphæðir inn á reikningum nenni vart að hafa fyrir því að endurheimta það fé. Þó séu fá dæmi þess að einstaklingar eigi eftir að endurheimta „umtalsverðar“ upphæðir eins og nýlega kom fram í frétt Telegraph af sama máli.

Viðskiptavinir Icesave voru um 400 þúsund þegar bankinn hrundi s.l. haust.