Larry Summers, fyrrverandi fjármálaráðherra Bandaríkjanna og efnahagsráðgjafi Baracks Obama, forseta Bandaríkjanna, mun að öllum líkindum verða tilnefndur til að taka við þegar Ben Bernanke stígur upp úr stólnum sem aðalseðlabankastjóri landsins í janúar á næsta ári. Barack Obama er á lokastigum þess að tilefna Summers, að því er fram kemur í japanska dagblaðinu Nikkei.

Ben Bernanke tók við af Alan Greenspan sem seðlabankastjóri í febrúar árið 2006.

Reuters-fréttastofan hefur upp úr blaðinu að ákveðið verði í næstu viku hver komi til greina sem eftirmaður Bernanke. Talsmaður Hvíta hússins segir hins vegar í samtali við fréttastofuna að engin ákvörðun hafi verið tekin um það hver muni taka við sem næsti seðlabankastjóri Bandaríkjanna. Öldungadeild Bandaríkjaþings þarf að samþykkja tilnefninguna.

Blaðið rifjar upp að auk Summers hafi Janet Yellen, aðstoðarseðlabankastjóri bandaríska seðlabankans, komið til greina sem næsti bankastjóri.