Sævarhöfði ehf., félag í eigu Sunds ehf., sem meðal annars á bifreiðaumboðið Ingvar Helgason ehf., hefur keypt allt hlutafé í bifreiðaumboðinu B&L, samkvæmt öruggum heimildum Viðskiptablaðsins. Samningur um kaupin er þó háður samþykki birgja.

B&L var að stærstum hluta í eigu fjölskyldu Gísla Guðmundssonar, fyrrverandi forstjóra og núverandi stjórnarformanns B&L. B&L hefur umboð fyrir BMW, Huyndai, Land Rover og Renault og rekur umfangsmikla sölu á notuðum bílum ásamt stóru þjónustuverkstæði á Grjóthálsi 1 og Viðarhöfða 1 í Reykjavík.

Með kaupunum verða tvö fyrirtæki í eigu tengdra aðila sem hafa innan sinna vébanda umboð fyrir 11 bílaframleiðendur, þar af hefur Ingvar Helgason umboð fyrir fimm; Isuzu, Nissan, Opel, Saab og Subaru auk Ameríkugerða Chevrolet og Cadillac. Þess má geta í þessu samhengi að Hekla hf. ásamt tengdum félögum hefur umboð fyrir sex bílaframleiðendur.

Starfsmönnum B&L var tilkynnt um kaupin í gær og síðdegis í gær stóð til að halda starfsmannafund hjá Ingvari Helgasyni.

Kristinn Geirsson, sem er hluthafi í Sævarhöfða, segir að samningurinn gangi í gegn þegar samið hafi verið við alla birgja. Hann segir að ekkert sé sjálfgefið með það að allir birgjar samþykki kaupin en niðurstaða um það fáist líklega innan mánaðar.

Kaupin á B&L hafa átt sér nokkurra mánaða aðdraganda. Fyrirtækin verða rekin aðskilin og sem tvö fyrirtæki.
"Það liggur fyrir að Erna Gísladóttir heldur áfram að reka B&L. Síðan verður hagræðing í fjármálum skoðuð gaumgæfilega. Grunnatriði sem snúa að viðskiptavinunum eru óbreytt og fyrirtækin rekin áfram sem sjálfstæð félög," segir Kristinn.

Þó er ljóst að þegar fram í sækir þykir líklegt að ná megi fram mikilli framlegð í rekstri fyrirtækjanna með samnýtingu í stjórnun og á öðrum sviðum. Um þetta sagði Kristinn að ekkert sérstakt lægi fyrir um þetta en ýmislegt væri hægt að gera sem eigendur ætluðu að gefa sér góðan tíma til þess að skoða. Kristinn sagði að kaupverð væri trúnaðarmál á milli kaupenda og seljenda.

Sævarhöfði ehf. er að stærstum hluta í eigu Sunds ehf. en að auki eru hluthafar Kristinn Geirsson, Haukur Guðjónsson, forstjóri Ingvars Helgasonar, og fleiri aðilar.

Rúmlega 100 manns vinna hjá Ingvar Helgasyni sem hefur í nær 50 ár starfað við sölu og þjónustu á bifreiðum og tækjum. Um 100 manns vinna hjá B&L. Ekki náðist í Ernu Gísladóttur, forstjóra B&L, í gær.