Fjárfestingarfélagið Sund ehf. hefur tilkynnt hlutafélagaskrá að það hyggist yfirtaka dótturfélag sitt, IceCapital ehf. og tekur Sund við öllum eignum og skuldum, réttindum og skyldum IceCapital ehf. Sömu eigendur eru að félögunum. Félagið mun bera nafn Sund ehf. eftir samrunann.

Einfaldar strútkur á rekstri

Í samtali við Viðskiptablaðið sagði Jón Kristjánsson að sameining Sund og Icecapital væri til þess hugsuð að einfalda skipulagið á rekstri félagsins.  „Við erum að sameina félög í eigu sömu aðila og teljum okkur ná fram ákveðinni einföldun á strútkúrnum með þeim hætti. Þetta breytir ekki miklu,” segir hann.

Eigið fé Sunda eykst talsvert við yfirtökuna en Jón kvaðst ekki vilja láta upp hversu mikið. Aðspurður um helstu eignir Icecapital sagði Jón að þær hefðu verið bréf í hinum og þessum félögum en hann kysi að gefa ekki upp nánar hver þau væru, þar sem félagið væri óskráð.

Á um 12-13 milljarða í bönkum

Sund ehf. er eignarhaldsfélag í eigu Gunnþórunnar Jónsdóttur og barna hennar, Jóns Kristjánssonar og Gabríelu Kristjánsdóttur. Félagið á m.a. hluti í Landsbanka, Kaupþingi og Byr, og er sameiginlegt markaðsverðmæti þeirrar eignar á milli 11-12 milljarðar króna eftir því sem næst verður komist.

IceCapital ehf. hefur verið stærsti hluthafi VBS-fjárfestingarbanka með um 12,5% eignaraðild, en miðað við áætlað markaðsverðmæti bankans á liðnu ári er sá hlutinn metinn á um 1,2 milljarða króna. Sund ehf. keypti seinasta haust bifreiðaumboðið B&L í gegnum dótturfélag sitt. Sund ehf. átti 22% hlutafjár í Northern Travel Holding en seldi eign sína í félaginu í lok seinasta árs.