Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA segir að nauðsynlegt sé að koma Sundabraut af stað og að hún sé eitt skýrasta dæmið um vegaframkvæmd sem hentar mjög vel í einkafjármögnun og -framkvæmd.

GAMMA, ásamt Lex lögmannstofu, hefur sýnt áhuga á að hrinda af stað undirbúningi vegna lagningar Sundabrautar. Þessir aðilar hafa sent erindi til stjórnar Faxaflóahafna um að koma af stað vinnuhópi um Sundabrautina auk þess sem verkfræðistofan EFLA hefur átt fundi með forsvarsmönnum GAMMA og LEX. Þetta kemur fram í nýjum pistli á heimasíðu GAMMA.

Gísli segir að of snemmt sé að segja hverjir líklegir fjárfestar eru, en gera má ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir og erlendir innviðasjóðir gætu haft áhuga.

GAMMA er að leggja lokahönd á skýrslu um innviðafjárfestingar á Íslandi. Fyrirtækið metur það sem svo að uppsöfnuð fjárfestingarþörf í inviðum á Íslandi nemur að minnstsa kosti 250 milljörðum króna. Þá metur GAMMA það svo að fjárfestingarþörf í innviðum næstu 7-10 árin verði að minnsta kosti 500 milljarðar. Telur fyrirtækið að þjóðhagslegt tap af því að hafa ekki ráðist í gerð Sundabrautar fyrir áratug nemi á bilinu 12-15 milljörðum.