Vegagerðin hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem áréttuð er afstaða stofnunarinnar til fyrirhugaðrar Sundabrautar. Niðurstaða Vegagerðarinnar er að Leið III eða svokölluð eyjalausn sé tæknilega, fjárhagslega og umferðarlega mun betri kostur en jarðgangaleiðin. Hún gefi miklu meiri arðsemi af því fjármagni sem til framkvæmdanna er varið. Jarðgöng kosta 24 milljarða króna, eða  9 milljörðum meira en eyjalausnin.

“Það er því alveg ljóst að Vegagerðin getur ekki mælt með að jarðgangalausn verði valin,” segir í yfirlýsingunni.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um það í fjölmiðlum hvað tefði framvindu um gerð Sundabrautar og hefur Vegagerðin þar bent á að ekki hafi verið tekin endanleg afstaða til hvaða leið verði fyrir valinu varðandi tenginguna inn í austurhluta Reykjavíkur. Þar hafa þrír möguleikar verið í umræðunni, Leið I með hábrú, Leið III sem er svokölluð eyjalausn og síðan svokölluð jarðgangalausn.

Borgaryfirvöld hafa á síðustu stigum málsins helst hallast að gerð jarðganga undir Elliðaárvoginn, en ekki var farið í að gera nauðsynlegar botnrannsóknir þar fyrr en síðastliðið sumar. verði sú leið valin er talið ljóst að undirbúningstími að jarðgangagerð verði að lágmarki eitt og hálft til tvö ár þar til framkvæmdir gætu hafist.

[email protected]