Samkeppniseftirlitið hefur gert Sundagörðum hf. að greiða 750 þúsund krónur sekt fyrir að hafa brotið gegn skyldu um að tilkynna um samruna innan lögbundins frests.

Eru málavextir þeir að Sundagarðar keyptu allt hlutafé í Kjörvörum ehf. af Sparisjóði Mýrarsýslu í Borgarnesi í janúar í fyrra og taldi Samkeppniseftirlitið að um tilkynningarskyldan samruna gæti verið að ræða.

Lagði eftirlitið fyrir félagið að tilkynna um samrunann og barst tilkynning þann 13. mars sl. eða rúmum tveimur mánuðum eftir að tilkynningarskyldan hófst með undirritun kaupsamnings í árslok 2007.

Þar með telur eftirlitið að Sundagarðar hafi brotið gegn tilkynningaskyldu um samruna og beri að greiða sekt fyrir vikið.