Jóhannes Karl Sveinsson, lögmaður Insolidum ehf., félags í eigu Daggar Pálsdóttur og Páls Ágústs Ólafssonar, sem Saga Capital Fjárfestingarbanki hefur krafist yfirráða yfir í dómsmáli sem hófst í fyrradag fyrir Héraðsdómi, lét að því liggja í málflutningi sínum að einn stærsti hluthafi í Saga Capital og stjórnarmaður í SPRON hefði búið yfir trúnaðarupplýsingum um grundvallarþætti í umbreytingu SPRON í hlutafélag og vísaði þar til Gunnars Þórs Gíslasonar, framkvæmdastjóra Sundagarða hf.

Gunnar Þór segir að Sundagarðar hafi selt 40% af bréfum sínum í SPRON til Capacent í júlí, lítillega undir markaðsvirði. Sundagarðar eiga enn 60% af upphaflegri eign sinni í SPRON og hefur sá hlutur rýrnað allverulega frá því í fyrrasumar þegar hæstu viðskipti með bréf í SPRON miðuðust við að markaðsvirði sparisjóðsins væri 140 milljarðar króna.

Í frétt á vef RÚV 18. júlí 2007, tveimur dögum áður en Insolidum keypti sín bréf í SPRON, kemur fram að verðmat Capacent á SPRON væri 60 milljarðar króna. Verðmat markaðarins var hins vegar mun hærra, eða 100 milljarðar króna, sem var sú viðmiðun sem var á kaupum Insolidum á 1,5% hlut í SPRON. Enn fremur kemur það fram í frétt á mbl.is 17. júlí, þremur dögum áður en Insolidum kaupir sinn hlut, að það sé niðurstaða Capacent að eignarhlutur stofnfjáreigenda nemi 85% af hlutafé og eignarhlutur sjálfseignarstofnunarinnar 15%.

Páll Ágúst Ólafsson kvaðst í samtali við Viðskiptablaðið ekki vilja tjá sig um málið að sinni. Sama sagði Dögg Pálsdóttir.

Gunnar Þór Gíslason, stjórnarmaður í SPRON og framkvæmdastjóri Sundagarða hf., segir að Sundagarðar hafi selt 40% af bréfum sínum í SPRON til Saga Capital í júlí 2007 og fyrirtækið eigi enn þá 60% af upphaflegri eign sinni í sparisjóðnum. Fyrir söluna nam heildareign Sundagarða í SPRON um 5%. "Við seldum bréfin undir markaðsverði á þessum tíma enda var þetta stór hluti sem var seldur í einu lagi."