Google tilkynnti óvænt í gær að fyrirtækið hyggðist ganga í gegnum algera endurskipulagningu og verður öll starfsemi fyrirtækisins nú starfrækt undir nýja móðurfyrirtækinu Alphabet.

Þessi breyting þýðir að Google, sem verður stærsta dótturfyrirtæki Alphabet, er komið með nýjan forstjóra í ljósi þess að Larry Page verður yfir móðurfélaginu. Nafn mannsins sem mun taka við af Page sem forstjóri Google er Sundar Pichai.

Page sagði að Pichai væri rökréttur kostur við að stýra Google og segir að hann hafi unnið gríðarlega vel fyrir fyrirtækið.

„Sergey (Brin) og ég höfum verið ótrúlega spenntir yfir framförum hans og framlagi til fyrirtækisins. Ég tel mig mjög heppinn að vera með jafn hæfileikaríkan mann og hann til að stýra örlítið smærra Google, ég mun hjálpa honum af stað,“ sagði Page.

Pichai er 43 ára gamall og hefur risið hratt upp metorðastigann hjá Google.