Um 290 milljóna punda arðgreiðslur bresku verslunarkeðjunnar Iceland voru sendar til aflandsfélagsins Pace Associates á Panama, samkvæmt rannsóknaraðilum á Íslandi. Þetta segir í nýjasta tölublaði Sunday Times þar sem fjallað er um Iceland Foods. Jón Ásgeir Jóhannesson fór fyrir hópi fjárfesta við kaup á keðjunni árið 2005. Samkvæmt núverandi gengisskráningu Seðlabanka Íslands er andvirði arðgreiðslnanna um 55 milljarðar ef umreiknað er í íslenskar krónur.

Í fréttinni segir að kröfuhafar reyni nú að finna þessa peninga. Jón Ásgeir hafi sjálfur ávallt fullyrt að enga peninga sé að finna á aflandseyjum eða í þekktum skattaskjólum og að málsóknir á hendur honum séu pólitískar ofsóknir.

Í grein Sunday Times er fjallað um kaup íslenskra athafnamanna á bresku matvörukeðjunni Iceland árið 2005. Kaupverð var 160 milljónir punda. Tveimur árum síðar var virði félagsins nærri 600 milljónir punda og skuldir félagsins höfðu hækkað mikið. Rannsakendur á Íslandi reyna nú að vinda ofan af flóknu viðskiptaneti sem talið er hafa verið notað til að halda úti ríkulegum lífstíl íslenskra viðskiptamanna, samkvæmt frétt blaðsins.

Iceland notað sem peð

Á sama tíma og kröfuhafar leita fésins hefur íslenskum rannsakendum tekist að fá gögn um bankareikninga íslenskra viðskiptamanna í Havilland banka í Lúxemborg, segir í greininn i. Hann var áður í eigu Kaupþings. Segir að Iceland hafi enga tengingu við eftirgrennslan í Lúxemborg. Í fréttinni segir að „það vill þó svo til að viðskipti með Iceland bjó til peningana“ sem talið er að séu inni á þeim reikningum.

„Þetta var ekki í fyrsta sinn sem fyrirtækið var notað sem peð af íslensku auðjöfrunum. Verslað var með hlutabréf í félaginu fram og aftur á milli íslenskra fjárfestingafélaga í skiptum fyrir fjárfestingar sem voru allt frá flugfélögum til skandinavískra skóga, samkvæmt íslenskum rannsakendum sem reyna nú að sjá heildarmynd viðskiptanna,“ segir í greininni.

„Undir stjórn forstjóra og stofnanda Iceland, Malcolm Walker, varð Iceland ein af arðbærustu eignum Íslendinganna. Hlutabréf í félaginu voru mikilvægir spilapeningar.“ Segir einnig að einskiptishagnaður Walker hafi verið 290 milljónir punda, um 55 milljarðar króna, við endurfjármögnun félagsins við viðskipti Íslendinganna.

Þá eru rifjuð upp viðskipti frá því í september 2008 þar sem Fons, félag Pálma Haraldssonar, seldi 22,5% hlut í Iceland til Styttu. Segir í greininni að þeir sem rannsaka málin hér heima telji að Stytta hafi verið stjórnað af Walker og stjórnendateymi hans í gegnum félagið Blackstar. Engir peningar skiptu um hendur. Samkvæmt rannsakendum var greiðslan í formi samkomulags um ábyrgð á 50 milljarða króna láni sem Iceland fékk frá Landsbanka Íslands. Viðskiptin gerðu það að verkum að Fons gat minnkað skuldir en félagið var undir þrýstingi frá lánveitendum á þeim tíma, að því er greint er frá í Sunday Times.

Talið er að 22,5% hlutnum hafi verið skipt jafnt á milli Walker og tveggja framkvæmdastjóra verslunarkeðjunnar, Andrew Pritchard og Tarsem Dhaliwal. Samtals héldu þeir um 42% hlut í Iceland. Landsbankinn átti 25% og Glitnir 10,4%.

Landsbankinn stór eigandi

„Í dag er ekki ljóst hvert eignarhald Iceland er. Nýleg fréttatilkynning bendir til að Landsbankinn eigi 67% af hlutafé og Walker, Pritchard og Dhaliwal haldi um 24%. Walker og Landsbanki neituðu að svara Sunday Times þegar eftir því var leitað.“

Landsbanki hefur sagt að hlutur þeirra í  Iceland muni fara í söluferli á þessu ári. Sunday Times segir að virði slíkra viðskipta yrði um milljarður punda. Verslanir Iceland eru 800 talsins. Walker bauð í félagið á síðasta ári og sagði viðræður ganga vel.