Evrópskir fjármálamarkaðir loga stafnanna á milli og ljóst er að ekki verður í bráð gripið til aðgerða til þess að leysa vandann á vettvangi Evrópusambandsins.

Vandinn þekkir hinsvegar enginn landamæri þar sem að meiriháttar bankar og fjármálafyrirtæki starfa þvert á landamæri og eldur sem logar á einum stað er fljótur að dreifa sig út.

Hér er yfirlit yfir helstu aðgerðir stjórnvalda á evrusvæðinu í dag.

Bretland: Bresk stjórnvöld tilkynntu í dag að þau myndu fjárfesta 50 milljörðum sterlingspunda í breskum bönkum.

200 milljarðar punda af lausafé verða veittar út á millibankamarkað og stjórnvöld munu tryggja 250 milljarða af útgefnum skuldabréfum breskra banka til þess að losa um þá stíflu sem hefur myndast á fjármálamörkuðum.

Frakkland: Frönsk stjórnvöl ítrekuðu í dag yfirlýsingar um að engum frönskum banka yrði leyft að fara á hausinn.

Fjármálaráðherra landsins, Christine Lagarde, sagði að ekki yrði ráðist í samhæfðar björgunaraðgerðir á vettvangi Evrópusambandsins, líkt og í Bandaríkjunum, þar sem að evrópskur fjármálamarkaður er sundraður. Þó sé ekki hægt að útiloka slíkar aðgerðir að hennar mati.

Ítalía: Efnahagsmálaráðherra landsins. Guulio Tremonti, boðaði til neyðarfundar fulltrúa seðlabankans og þungavigtarmanna í fjármálageiranum og hagkerfinu.

Eftir að Evrópusambandið létti af reglum um leyfilega aðstoð ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu við banka geta stjórnvöld í Róm nú nýtt fé sem liggur í Póstbankanum eða Cassa Depositi e Prestiti. Upphæðin nemur 90 milljörðum evra.

Spánn: Jose Luis Rodriguez Zapatero, forsætisráðherra, lýsti því yfir í gær að stjórnvöld myndu setja á laggirnar nýjan sjóð að andvirði 30 milljarða evra sem styðja á við fjármálakerfið í lánsfjárkreppunni.

Leyfilegt er að hækka andvirði sjóðsins upp í 50 milljarða evra en sjóðnum er ætlað að kaupa eignir af þarlendum bönkum til þess að auka svigrúm þeirra til útlána.

Austurríki: Stjórnvöld tilkynntu í dag að allar innistæður og allur sparnaður í bankakerfinu væri tryggður af stjórnvöldum. Um er að ræða svipaðar aðgerðir og frændur þeirra í Þýskalandi réðust  á dögunum

Finnland: Finnsk stjórnvöld tilkynntu í dag að þau auka ríkistryggingu á innlánum. Hún verður 50 þúsund evrur í stað 25 þúsund evra.