*

sunnudagur, 28. nóvember 2021
Erlent 29. ágúst 2020 14:05

Sundurleitar skoðanir á bréfum Tesla

Margir binda miklar vonir við framtíð Tesla, en sitt sýnist hverjum um hversu raunhæfar þær vonir eru.

Júlíus Þór Halldórsson
Elon Musk, forstjóri og stofnandi Tesla, er orðin nokkurskonar stórstjarna, hvers persóna er órjúfanlegur hluti fyrirtækisins og um leið hlutabréfaverðsins.
epa

Spár og skoðanir á því hvernig rafbílaframleiðandanum Tesla muni farnast næstu ár eru afar sundurleitar, en hlutabréfaverð félagsins hefur verið sannkölluð rússíbanareið frá áramótum.

Greiningaraðili sem birti nokkuð ítarlega greiningu á framtíðarhorfum Tesla í janúar síðastliðnum spáði því að bréf félagsins geti orðið frá 0 og upp í 22 þúsund dala virði árið 2024, eftir því hvernig spilast úr lykiláhrifaþáttum. Fjórðungslíkur séu á að verðið verði undir 1. 500 dölum á hlut, og fjórðungslíkur á að það verði yfir 15.000 dölum.

Meðaltal verðmats greiningaraðila á Wall Street á bréfum Tesla er um 1.200 dalir, og aðeins fimmti hver mælir með kaupum á bréfunum í dag. Hlutabréf Tesla eru langtum mest skortseldu bréf í heimi þessa dagana, með yfir 27 milljarða dala samanlagða skortstöðu. 

Efasemdamenn benda á að enn sem komið er sé lítið í hendi um meinta botnlausa eftirspurn og ofurarðsemi félagsins á komandi árum. Eftirspurn hafi vissulega verið sterk eftir nýjustu tveimur bílunum, Model 3 og Model Y, en fyrirtækinu hafi ekki tekist að anna þeirri eftirspurn enn.

Stuðningsmenn félagsins benda þó á að þetta standi senn til bóta. Í fyrra opnaði verksmiðja í Shanghai í Kína, sem reist var á aðeins 12 mánuðum, og á næsta ári stendur til að opna tvær til viðbótar, aðra í Þýskalandi og hina í Texas í Bandaríkjunum.

Sjálfkeyrandi leigubílar gætu orðið gullgæs
Enn stærri óvissuþáttur er svo sjálfaksturstækni. Tesla hefur lengi lagt mikið upp úr sjálfkeyrandi eiginleikum bíla sinna. Þegar hinn vinsæli Model 3 kom á markað var hann sagður innihalda allan vélbúnað sem til þyrfti til að bíllinn gæti með tíð og tíma séð alfarið um aksturinn, þegar hugbúnaðurinn væri tilbúinn. Kaupendum hefur frá upphafi boðist að forpanta þann eiginleika fyrir um milljón krónur aukalega.

Þegar fram líða stundir sér Elon Musk framkvæmdastjóri fyrir sér að Tesla muni sjálft reka heilan flota sjálfkeyrandi bíla, sem stundi leigubílaakstur og skaffi félaginu þannig tekjur. Verði Tesla fyrst til að fullkomna sjálfaksturstæknina og geti eitt fyrirtækja rekið slíka sjálfvirka leigubíla er auðvelt að sjá fyrir sér mikinn hagnað, en erfitt er að segja fyrir um líkur á því í dag.

Hjálpa Musk til Mars
Að lokum er erfitt að aftengja hlutabréfaverð Tesla frá stórstjörnunni Elon Musk og skoðunum fjárfesta og almennings á honum. Til viðbótar við að reka verðmætasta bílaframleiðslufyrirtæki heims rekur hann meðal annars SpaceX, sem stefnir á mannaðar ferðir til Mars, og hefur viðrað hugmyndir um samgöngubætur á borð við að færa bílaumferð neðanjarðar og smíða lofttæmd göng fyrir hraðlestir.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Tesla Elon Musk