Úlfhildur Rögnvaldsdóttir
Úlfhildur Rögnvaldsdóttir

Ráðamenn þjóðarinnar verða að teygja sig til samstöðu við landsmenn um mikilvæg mál svo sem fiskveiðistjórnunarkerfið og rammaáætlun um orkunýtingu, að mati Úlfhildar Rögnvaldsdóttur, formanns Félags verslunar og skrifstofufólks Akureyri og nágrenni. Úlfhildur flutti ávarp að lokinni kröfugöngu á Akureyri, en samkoman var í menningarhúsinu Hofi. Sagt er frá þessu í frétt Vikudags .

„Kjörorð dagsins dag eru Vinna er velferð og það er hverju orði sannara,” sagði Úlfhildur. “En hvernig stendur á því að við sem þjóð skulum ekki ná því að koma hjólum atvinnulífsins á skrið og fjölgað störfum? Landið okkar er ríkt af auðlindum til lands og sjávar, þjóðin er vel menntuð og hugrökk, en það er eins og við getum ekki komið okkur saman um hvernig við stígum skrefin til framfara. Ráðamenn þjóðarinnar verða að teygja sig til samstöðu við landsmenn um mikilvæg mál svo sem fiskveiðistjórnunarkerfið og rammaáætlun um orkunýtingu.

Sundurlyndi, óöryggi og vantraust einkenna þjóðarsálina. Því ástandi verður að linna. Enginn vafi er á því eð við munum vinna okkur út úr kreppuástandinu, en það virðist ætla að taka okkur allt of langan tíma. Við verðum að hætta að kynda undir sundrungu og snúa bökum saman því öll stefnum við að sama marki, að ná okkur upp úr öldudalnum og gera samfélagið betra og réttlátara.“