Sunna Valgerðardóttir hefur verið ráðin svæðisstjóri RÚVAK og mun hún stýra starfssemi RÚV á Akureyri sem og annarri starfsemi á landsbyggðinni. Ber svæðisstjóri ábyrgð á fréttaflutningi af landsbyggðinni í útvarpi, sjónvarpi og á vefnum auk verkstjórnar.

Sunna hefur undanfarin ár starfað sem blaðamaður á Kjarnanum, þar sem hún hefur sinnt ritstjórnarstörfum auk almennra fréttaskrifa. Hún var samskiptasérfræðingur og upplýsingafulltrúi Orkuveitu Reykjavíkur árin 2015-2016, vann sem fréttamaður á fréttastofu RÚV á árunum 2013-2015 og sem blaðamaður á fréttadeild Fréttablaðsins árin 2009-2013.

Sunna er með B.A. gráður í nútíma- og fjölmiðlafræði frá Háskólanum á Akureyri og diplóma í margmiðlunarhönnun frá Odense Techniske Skole. Hún hlaut Blaðamannaverðlaun BÍ árið 2013 fyrir umfjöllun ársins.