*

föstudagur, 5. júní 2020
Fólk 13. maí 2020 09:19

Sunneva Ósk tekur við af Elvari

Samherji og ÚA ráða Sunnevu Ósk Guðmundsdóttur sjávarútvegsfræðing sem gæðastjóra landvinnslu. Elvar Thorarensen hættir.

Ritstjórn
Sunneva Ósk Guðmundsdóttir tekur við af Elvari Thorarensen sem gæðastjóri landvinnslu Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa.
Aðsend mynd

Sunneva Ósk Guðmundsdóttir hefur verið ráðin gæðastjóri landvinnslu Samherja og Útgerðarfélags Akureyringa (ÚA). Hún tekur við starfinu af Elvari Thorarensen sem lætur af störfum af heilsufarsástæðum.

Sunneva er sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri og hefur starfað við gæðamál hjá Samherja og ÚA undanfarin þrjú ár. Hún er búsett á Akureyri, er í sambúð með Ómari Þorra Gunnlaugssyni og eiga þau tvö börn.

Gæðastjóri í 25 ár

Elvar hefur starfað hjá ÚA allan sinn starfsferil, fyrst í starfsmannamálum en síðan sem gæðastjóri í 25 ár. Samherji segir að Elvar hafi alla tíð sinnt starfi sínu af mikilli trúmennsku og verið leiðandi á alþjóðavísu í gæðamálum fiskvinnslunnar.  Elvar hefur unnið að gæðamálum og úttektum með öllum stærstu smásöluaðilum í heiminum.

Jafnframt hafi hann síðustu ár unnið ötullega að því að móta nýtt starfsumhverfi fiskvinnslunnar þar sem öryggi, umhverfisvernd og sjálfbærni séu lykilþættir. Landvinnsla Samherja og ÚA er viðurkennd af kröfuhörðustu kaupendum á Vesturlöndum fyrir gæðaframleiðslu og á Elvar stóran þátt í því ásamt öðru starfsfólki fyrirtækjanna.

Elvar mun verða starfsfólki ÚA og Samherja innan handar næstu mánuði og aðstoða í þeim verkefnum sem upp koma. Samstarfsfólk Elvars þakkar honum fyrir ljúf kynni, langt og farsælt samstarf og óskar fjölskyldu hans alls hins besta.