Sunnlendingar hafa tekið út 3,4 milljarða króna síðan útgreiðsla séreignarsparnaðar var leyfð í byrjun árs 2009. Þetta þýðir að sunnlensk sveitarfélög hafa fengið um 430 milljónir króna í auknar útsvarstekjur.

Fram kemur í Sunnlenska fréttablaðinu að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga fékk einnig tekjur af þessum útgreiðslum eða um 41 milljón króna.

Heimild til útgreiðslu var fyrst ein milljón króna en síðar 6,25 milljónir króna með lagabreytingu í lok árs 2009. Samkvæmt Sunnlenska fréttablaðinu tóku íbúar Árborgar mest út úr séreignarsparnaðinum sínum eða um 1,7 milljarða króna. Íbúar Flóahrepps tóku minnst út eða um 66 milljónir króna.