Sveitarstjórn Rangárþings eystra hefur samþykkt að boða til íbúafundar um verslunarmál á svæðinu. Meðal annars stendur til að kanna grundvöll fyrir stofnun almenningshlutafélags um rekstur matvöruverslunar á Hvolsvelli.

Sunnlenska segir frá því að fulltrúar D-listans, sem eru í minnihluta í sveitarfélaginu, hafi lagt þessa tilllögu fram á síðasta fundi sveitarstjórnar og hafi hún verið samþykkt samhljóða og sveitarstjóra falið að vinna áfram að málinu.

Í greinargerð D-listans með tillögunni segir að nú sé orðið ljóst að sáralitlar líkur séu á því að eigendur lágvöruverslanakeðja sjái sér nægan hag í að reka slíka verslun í sveitarfélaginu á næstu árum, þrátt fyrir öflugar málaumleitanir af hálfu sveitarstjórnarmanna, bæði á þessu og fyrri kjörtímabilum, í þá veru.

„Með tilliti til fjölda ferðamanna og fjölgunar þeirra verður líklega arðsamt að reka verslun á Hvolsvelli í framtíðinni.  Ástæðulaust er að afhenda alla slíka þjónustu í hendur stórfyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu og viljum við láta reyna á hvort samtakahugur íbúanna er nægilegur til að menn sameinist um stofnun og rekstur slíks fyrirtækis,“ segir í greinargerð D-listans sem Sunnlenska vísar til.

Á Hvolsvelli er rekin Kjarvalsverslun í eigu Kaupáss en fyrr á árinu eignaðist sveitarfélagið húsnæðið sem verslunin er í. Á sama fundi lá fyrir bréf frá Kaupási þar sem fyrirtækið óskar eftir áframhaldandi leigu á húsnæðinu en sveitarfélagið hefur þegar tilkynnt Kaupási að samningurinn verði ekki framlengdur óbreyttur.