Þingmenn Suðurkjördæmis hafa skrifað Páli Magnússyni útvarpsstjóra og Óðni Jónssyni fréttastjóra Ríkisútvarpsins bréf þar sem þeir lýsa yfir óánægju með þá ákvörðun að leggja niður starf Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar á Suðurlandi um síðustu mánaðamót. Þingmennirnir segja í bréfinu ekki sjá hagræðingu í því að segja upp samningum við mann í verktöku og aka eða sigla í staðinn með töku- og fréttamann þegar á þarf að halda. Þeir vilja að útvarpsstjóri endurskoði ákvörðunina.

„Eitt mikilvægasta hlutverk Ríkisútvarpsins snýr að byggðum landsins sbr. 10. töluliður, 2. mgr., 3. gr. laga um Ríkisútvarpið um útvarpsþjónustu í almannaþágu. Því óskum við eftir skýringum á því af hverju það mikilvæga starf sem fréttaritari á Suðurlandi hefur sinnt með miklum sóma er lagt af,“ segir í bréfinu og bent á að við blasi að fréttaflutningur af svæðinu muni minnka verulega án þess að greinileg ástæða blasi við.

Þingmennirnir óska jafnframt eftir formlegum skýringum á þessari ákvörðun sem vegi að þeirra mati að þjónustuhlutverki Ríkisútvarpsins á svæðinu.