Hjúkrunarheimilið Sunnuhlíð í Kópavogi hefur komist að samkomulagi við Landsbankann um uppgjör á um 600 milljóna skuld sem er í vanskilum. Greint var frá þessu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Skuld heimilisins við Landsbankans tengist áformum um uppbyggingu á lóðum á Kópavogstúni. Við efnahagshrunið komust uppbyggingaráform í uppnám. Samkvæmt ársreikningi Sunnuhlíðar fyrir árið 2011 kemur fram að lánið sé í vanskilum. Lausn hefur nú fengist á málið sem felur í sér að Sunnuhlíð framselur lóðaleigurétt á túninu til verktakafyrirtæksins Jáverks. Skuld upp á um 600 milljónir króna er upp gerð með þessum hætti.

Framsalið er háð samþykki Kópavogsbæjar sem fundaði um málið nú undir kvöld, að því er kom fram í fréttum Stöðvar 2.