Úrslitaleikur ameríska NFL fótboltans, betur þekktur sem Super Bowl, um síðustu helgi sló öll fyrir áhorendamet og er sá viðburður sem mest sjónvarpsáhorf hefur fengið frá upphafi.

Samkvæmt upplýsingum frá Nielsen media, sem mælir m.a. áhorf sjónvarpsviðburða, horfðu um 106,5 milljón manns á leikinn þar sem New Orleans Saints sigruðu Indianapolis Colts í fjörugum og spennandi leik.

Það sem er athyglisvert er að fyrra áhorfendamet var frá árinu 1983 þegar 105,97 milljónir manns horfðu á lokaþáttinn af læknadramaþættinum M*A*S*H. Í fyrra horfðu tæplega 100 milljónir manna á úrslitaleik Pittsburgh Steelers og Arizona Cardinals sem þá var áhorfendamet í NFL deildinni.

Til samanburðar, og til gamans, má nefna að um 109 milljón manns horfðu á leik Barcelona og Manchester United í úrslitum Meistaradeildarinnar í maí sl. og um 48 milljónir horfðu á stefnuræðu Barack Obama, forseta Bandaríkjanna í janúar. Þá horfa að meðaltali tæplega 27 milljónir á mest horfða sjónvarpsþátt Bandaríkjanna í dag, American Idol.

Það var nokkur áhugi í Bandaríkjunum fyrir leik Colts og Saints. Colts sigruðu Super Bowl fyrir þremur árum en Saints voru nú í fyrsta skipti að keppa til úrslita.

Ekki hafa enn verið birtar tölur um auglýsingatekjur vegna Super Bowl en þær telja á hundruðum milljóna dala. Viðburðurinn þykir einn dýrasti auglýsingagluggi heims og þeir sem starfa í auglýsingabransanum bíða yfirleitt spenntir eftir því að sjá auglýsingarnar sem þar birtast. Þær eru í allflestum tilfellum nýjar og frumsýndar í leikhléum Super Bowl.

Fyrir áhugasama má sjá nokkrar auglýsingar frá viðburðinum sem teknar hafa verið saman á vef Pressunar.