Stjórnvöld á Ítalíu ætla að gefa út 10 milljarða evra ríkisskuldabréf í dag með það fyrir augum að endurfjármagna skuldir hins opinbera. Ráðist verður í útgáfuna þrátt fyrir bæði afleitt gengi Þjóðverja á skuldabréfamarkaði í vikunni og dýrt lántökugjald, 7% álag ofan á ítölsku lánin.

Olli Rehn, sem fer með efnahagsmál hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, áformar að fara til Ítalíu, fylgjast með útboðinu og ræða við Mario Monti, sem nýverið tók við forsætisráðherraembætti af Silvio Berlusconi. Monti á það sameiginlegt með nafna sínum Mario Draghi, bankastjóra evrópska seðlabankans, að hafa tekið við afar erfiðu búi af forvera sínum. Af þeim sökum hafa þeir báðir verið kallaðir „Súper-Mario“ eftir tölvuleikjahetjunni smávöxnu.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, funduðu með Monti í gær.

AFP-fréttastofan bendir á að lántökukostnaður Ítala hafi rokið upp úr öllu valdi enn á ný, sé kominn yfir 7%. Við það eigi rauðu ljósin að blikka enda hafi Grikkir, Portúgalar og Írar leitað á náðir Evrópusambandsins eftir peningi úr neyðarsjóði til að forða sér frá gjaldþroti.