Mario Draghi seðlabankastjóri Seðlabanka Evrópu og Vítor Manuel Ribeiro Constâncio aðstoðareðlabankastjóri kynntu í dag viðamikla áætlun bankans um kaup á ríkisskuldabréfum verst settu evrulandanna á eftirmarkaði.

Með kaupunum ætlar bankinn að lækka kröfu á skuldabréfum landanna og þar með lækka fjármagnskostnað þeirra.

Draghi, sem oft er kallaður Super Mario, sagði á fréttamannafundi að einn meðlimur stjórnar bankans sé mótfallinn þessum áformum. Öruggt er að þar hafi hann átt við Jens Weidmann bankastjóra Seðlabanka Þýskalands.

Sérfræðingar hafa kallað þetta stórskotaárás gegn fjármálakreppunni í Evrópu. Seðlabankastjórinn lagði þó mikla áherslu á fundinum að bankinn þyrfti aðstoð aðildarlanda evrópska myntsamstarfsins til að ná stjórn á ástandinu á evrópskum fjármálamörkuðum.

Hlutabréf hækkuðu mikið í Evrópu og á Wall Street við tíðindin og álag á skuldabréf skuldsettustu landa Evrópu lækkaði mikið.