Mario Draghi, seðlabankastjóri Ítalíu, tekur við af Jean-Claude Trichet sem bankastjóri evrópska seðlabankans á morgun. Fjármálaskýrendur segja Draghi taka við erfiðu búi, hann verði að sannfæra þýska ráðamenn um að hann geti staðið í brúnni án þess að bugast undan þrýstingi frá skuldsettustu evruþjóðunum og slaka á taumnum sem Trichet hafi haldið styrkri hendi eftir að fjármálakreppan skall á.

Slík er pressan að breska vikuritið kallaði nýjan seðlabankastjóra Súper-Mario eftir tölvuleiknum.

Financial Times rifjar upp feril Draghis í dag. Hann er 64 ára hagfræðingur að mennt með doktorsgráðu frá MIT-háskólanum í Bandaríkjunum og hefur kennt fræðin við háskólann í Flórens á Ítalíu.

Þá er bent á að hann hafi í það minnsta glímt við álíka fjármálakreppu og hann standi frammi fyrir nú. Það var um miðjan tíunda áratug síðustu aldar þegar Ítalía þurfti að moka sig upp úr skuldahít. Eftir stutta viðdvöl hjá bandaríska fjárfestingarbankanum Goldman Sachs settist hann í stól seðlabankastjóra Ítalíu í jólamánuðinum árið 2005. Þar hefur hann þótt í íhaldssamari kantinum en hæglátur og líka betur við að stýra á bak við tjöldin en fyrir framan þau.

Eins og áður sagði hvílir margt á herðum nýs seðlabankastjóra. Helsta áhyggjuefnið er næsti vaxtaákvörðunarfundur hans. Stýrivextir á evrusvæðinu standa í 1,5% og hefur verið þrýst á bankann að hann lækki vexti til að ýta efnahagslífinu á evrusvæðinu upp úr skuldakreppunni. Financial Times bendir á að ólíklegt sé að Draghi láti sitt fyrsta verk verða að lækka vextina og ráðleggur honum að halda þeim óbreyttum að sinni. Með því móti sýni hann styrkleika sinn.