*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 28. febrúar 2021 19:01

Súrinn eiginlega fjórða barnið

Lóa Bára Magnúsdóttir er nýr markaðsstjóri Heimstaden á Íslandi en hún bjó um árabil í Noregi.

Jóhann Óli Eiðsson
Eyþór Árnason

„Ég er mjög stolt af því að taka þátt í þessari vegferð. Heimstaden er með góða yfirbyggingu og drifið fram af skýrum gildum. Samfélagsábyrgð er í kjarna starfseminnar, ekki bara í orði heldur einnig borði, og félagið vill leggja sitt af mörkum fyrir nærumhverfið,“ segir Lóa Bára Magnúsdóttir, nýr markaðsstjóri Heimstaden á Íslandi.

„Það eru alltaf einhver sem eru á leigumarkaði og markmið okkar er að þjónusta þá einstaklinga til langs tíma. Þjónustustigið er mun hærra en fólk hefur vanist á íslenskum leigumarkaði, ef eitthvað bjátar á þá eru okkar menn mættir, jafnvel að hengja upp hillur, setja upp gardínur eða hvaðeina sem þarf að græja í nýrri íbúð,“ segir Lóa Bára.

Síðastliðin tólf ár hafa hún og fjölskylda hennar búið á erlendri grund. Fyrst vegna náms í Bretlandi og þaðan lá leiðin til Noregs. Það stopp átti upphaflega að vera eitt til tvö ár en þau urðu ellefu.

„Okkur leið rosalega vel í Noregi en það að vera Íslendingur er smá eins og að vera ryksuguróbot. Þú getur verið á fullu út um allt en þú þarft öðru hvoru að koma aftur í „base“ og hlaða rafhlöðurnar. Við fundum það fyrir tveimur árum að Ísland var byrjað að toga. Við vorum ekki alveg tilbúin til að leggja í hann þegar faraldurinn skall á en það auðveldaði viðskilnaðinn við Noreg,“ segir Lóa Bára.

Eiginmaður Lóu Báru er Freyr Pálsson, jarðverkfræðingur sem starfar sem hönnunarstjóri jarðganga hjá Vegagerðinni. Saman eiga þau níu ára dreng og tvær dætur, sjö og tveggja ára. „Þau eru öll fædd og uppalin úti og þetta var svona síðasti séns upp á að þau yrðu ekki alveg norsk,“ segir Lóa Bára og hlær. „Noregur hefur samt smitað okkur af mörgu. Við hjónin erum svolítið á svigskíðum en börnin eru góð á gönguskíðum enda fæddust þau eiginlega með þau á fótunum.“

Önnur fyrirferðarmikil áhugamál Lóu eru matargerð, ferðalög og jóga. „Ég hef bakað mikið úr súrdeigi síðustu árin. Súrinn sem ég nota er sænskur og það má segja að hann sé fjórða barnið,“ segir hún að lokum.