*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 13. september 2021 19:04

Súrsætt hjá Rikka Chan

Veitingastaðurinn skilaði smávægilegu tapi á síðasta ári. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst hefur það ekki gerst fyrr.

Jóhann Óli Eiðsson
Frá Stjörnutorgi hvar flaggskip Rikka Chan er staðsett.

Afkoma Rikka Chan ehf., sem á og rekur samnefndan veitingastað, á síðasta ári var neikvæð sem nemur 2,2 milljón krónum. Eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er þetta í fyrsta sinn sem staðurinn skilar tapi.

Tekjur námu 208 milljón krónum en það er tæplega 16% samdráttur frá því árið 2019. Leiða má að því líkur að það megi rekja til samkomutakmarkana sem voru í gildi í fyrra. Afkoman 2019 var 18,7 milljón króna hagnaður.

Gjöld námu á móti tæplega 212 milljón krónum, drógust saman um sautján milljónir, sem má að rekja til samdráttar í kaupum á aðföngum. Alls nam var vörunotkun tæplega 69 milljónum saman borið við rúmlega 87 milljónir árið 2019. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður hækkaði á móti um fimm milljónir.

Laun og launatengd gjöld stóðu í stað milli ára, nánast upp á krónu, en smávægilegt misræmi er milli fjárhæðarinnar sem gefin er upp í rekstrarreikningi og síðan í skýringum við reikninginn. Samkvæmt rekstrarreikningi námu laun og tengd gjöld 99,4 milljónum, hækka um 83 þúsund frá fyrra ári, en í skýringum er upphæðin 97,7 milljónir. Samkvæmt samanburði í skýringunum nam hækkun útgjaldaliðarins 287 þúsund krónum frá árinu 2019.

Eignir félagsins námu 188 milljónum í ársbyrjun en þær eru að langstærstu leyti í formi veltufjármuna. Þar af námu viðskiptakröfur tæplega 56 milljónum og handbært fé 128 milljónum. Skuldir lækka um 46 milljónir milli ára, námu 24 milljónum í ársbyrjun, að stærstu leiti vegna uppgjörs á skuld við hluthafa.

Þrátt fyrir tap ársins hækkar eigið fé félagsins vegna leiðréttingar á því sem leiddi til hækkunar. Leiðréttingin nam tæplega 14 milljónum og eftir hana, að teknu tilliti til tapsins í ár, er eigið fé jákvætt um 164 milljónir. Hlutafé félagsins er sem fyrr í jafnri eigu Gunnars Davíðs Chan og Önnu Gretu Gunnarsdóttur.