„Ég held að samruninn [REI og Geysis Green Energy] hefði orðið gríðarlega skemmtilegt tækifæri og það var svolítið súrt að þetta skyldi ekki ganga upp. Það má kannski skrifa það á að málið hafi ekki verið lagt rétt upp eða á einhvern hátt ekki verið farið rétt að því. En í mínum huga var þetta tækifæri sem hefði verið gaman að sjá þroskast,“ segir Ásgeir Margeirsson nýr forstjóri Magma Energy á Íslandi í viðtali við Viðskiptablaðið. Á haustmánuðum 2007 varð mikið upphlaup þegar tilkynnt var um sameiningu GGE og Reykjavík Energy Invest (REI), útrásararms Orkuveitu Reykjavíkur. Málið orsakaði stjórnarslit í borgarstjórn Reykjavíkur og samruninn var á endanum dreginn til baka. Ásgeir telur sjálfur að í samrunanum hafi falist frábært tækifæri sem hafi farið forgörðum.

Fréttist um jarðhitaheiminn

Aðspurður um hvernig hefði mátt standa betur að samrunanum vill Ásgeir ekki lýsa því nánar. „Það er ekki sanngjarnt að gera það og þykjast vitur eftir á. Allir sem komu að þessu á sínum tíma held ég að hafi verið að reyna að gera þetta eins vel og hægt var. Svo kom í ljós að þetta gekk ekki upp. Þetta fréttist auðvitað út um jarðhitaheiminn. Aðilar sem við vinnum með tóku eftir þessu. Það kann vel að vera að málið hafi tafið fyrir uppgangi íslenskra jarðhitamanna erlendis, en það hafði ekki veruleg áhrif,“ segir Ásgeir.