Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) sendi í morgun frá sér tilkynningu þar sem birtar eru tekjur helstu yfirmanna í fjármálaráðuneytinu, hjá Ríkisskattstjóra auk fjölmiðlanna DV og Frjálsar verslunar.

Tilkynningin er birt í mótmælaskyni við að laun almennings séu birt á opinberum vettvangi líkt og tíðkast hefur í mörg ár.

„Ungir sjálfstæðismenn hafa í mörg ár skorað á stjórnvöld og fjölmiðla að hætta að birta laun almennra borgara,“ segir í tilkynningu SUS.

„Það er fáþekkt í heiminum að árlega geti hver sem er farið og skoðað skattgreiðslur annarra og þannig auðveldlega reiknað út laun þeirra. Það er einnig fráleitt fyrirkomulag að fjölmiðlar birti laun þúsunda Íslendinga í sérstökum blöðum.“

Ungir Sjálfstæðismenn segja að tekjur einstaklinga séu viðkvæmar persónuupplýsingar.

„Engin rök standa til þess að tekjur sé birtar með þessum hætti,“ segir í tilkynningu SUS.

„Vilji einhver halda því fram að almenningur eigi rétt á því að það sé á allra vitorði hvað einstaklingar greiða í sameiginlega sjóði, þá mætti með sömu rökum halda því fram að réttast sé að birta allar upplýsingar um bótagreiðslur til einstaklinga. Tekjur eru ekki eðlisólíkar útgjöldum, eignum eða skuldum fólks. Samt þurfa almennir borgarar ekki að sæta því að slíkar upplýsingar um þá séu birtar.“

Þá segir að til þess að sýna stjórnendum skattayfirvalda (fjármálaráðuneytis og Ríkisskattstjóra) og þeirra fjölmiðla sem gefa út tekjublöð (DV og Frjálsrar verslunar) fram á hvers konar brot á friðhelgi einkalífs þetta er hafi Samband ungra sjálfstæðismanna ákveðið að birta laun þessa fólks.

„Almennt telja ungir sjálfstæðismenn þó að ekki skuli birta lista yfir laun fólks án þeirra samþykkis. Það verður hins vegar að telja að neðangreindir aðilar hafi lagt blessun sína yfir það að þeirra laun verði birt með þessum hætti þar sem þau sáu ekkert því til fyrirstöðu að birta laun annarra,“ segir í tilkynningunni.

Hér fyrir neðan fer listinn sem birtur er með tilkynningunni og áætluð mánaðarlaun miðað við álagningarskrár.

  • Maríanna Jónasdóttir, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu - 1.140.863 kr.
  • Þórhallur Arason,  skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu - 892.152 kr.
  • Reynir Traustason, ritstjóri DV - 878.494 kr.
  • Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri - 874.830 kr.
  • Stefán Torfi Sigurðsson, framkvæmdastjóri DV - 815.207 kr.
  • Ingvar J. Rögnvaldsson, vararíkiskattstjóri - 794.449 kr.
  • Elín Alma Arthúrsdóttir, forstöðumaður hjá ríkisskattstjóra - 772.558 kr.
  • Jón Trausti Reynisson, ritstjóri DV - 750.485 kr.
  • Jens Þór Svansson, forstöðumaður hjá ríkisskattstjóra - 741.280 kr.
  • Ásgeir Heimir Guðmundsson, forstöðumaður hjá ríkisskattstjóra  - 712.223 kr.
  • Angantýr Einarsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu - 692.214 kr.
  • Nökkvi Bragason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu - 669.949 kr.
  • Benedikt Jóhannesson, eigandi Frjálsrar verslunar - 657.713 kr.
  • Oddný Guðbjörg Harðardóttir, fjármálaráðherra - 644.017 kr.
  • Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri DV - 576.070 kr.
  • Jón G Hauksson, ritstjóri Frjálsrar verslunar - 532.000 kr.
  • Ásta Jóhannsdóttir, eigandi DV - 147.353 kr.
  • Lilja Skaftadóttir Hjartar, eigandi DV - 28.617 kr.