Skortur á leigubílum og tilheyrandi raðir og biðtími hefur farið framhjá fáum sem hafa farið niður í bæ að undanförnu. Samband ungra sjálfstæðismanna munu leggja sitt af mörkum til að létta undir ástandinu með því að bjóða upp á frítt far frá klukkan 22 til 01 í kvöld.

Þjónustan verður án endurgjalds en SUS tekur á móti frjálsum framlögum í sjóð tileiknuðum erlendum einstaklingum sem vilja sækja sér leigubílaréttindi á Íslandi en geta það ekki „þar sem námskeið til öflunar leigubílaréttinda er á íslensku en engin túlkaþjónusta er í boði“, segir í færslu SUS á Facebook.

Sjá einnig: Stefnir í stórfelldan leigubílaskort

„Skapast hefur neyðarástand á leigubílamarkaðnum á Íslandi. Stórt gat þarf að fylla en stjórnvöld boða algjörar lágmarksaðgerðir. Þetta ástand býður uppá að einstaklingar bíða einir í yfir klukkutíma eða taka rafhlaupahjól ölvuð úr bænum, keyra undir áhrifum áfengis og skutlaramenningin stækkar með tilheyrandi hættu - sérstaklega fyrir ungar konur.“

SUS telur að með núverandi löggjöf, sem var sett árið 2001, sé Ísland eftirbátur annarra þjóða í að stuðla að eðlilegri samkeppni og atvinnufrelsi. Lögin hafi í megindráttum ekkert breyst þrátt fyrir miklar tækniframfarir í þessum geira.

„Við skorum á ráðherra að svara kallinu og færa löggjöfina á 21. öldina. Það þarf að ganga miklu lengra en núverandi tillaga hans gerir,“ segir í tilkynningu SUS. Er þar vísað til frumvarps Sigurðs Inga Jóhannssonar innviðaráðherra.