Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) skorar á stjórnvöld að draga umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka sem fyrst.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á stjórnarfundi SUS í gærkvöldi og send hefur verið fjölmiðlum.

„Fyrir liggur að mikil andastaða er við aðildarumsóknina á þingi og ekki síst hjá þjóðinni. Ungir sjálfstæðismenn telja glórulaust með öllu að eyða meiri fjármunum í þetta áhugamál Samfylkingarinnar,“ segir í ályktuninni.

Þá kemur einnig fram að á sama tíma og stjórnkerfið þurfi að einbeita sér að endurreisninni telji ungir sjálfstæðismenn fráleitt að það sé önnum kafið við umsóknarferlið.

Þá skora Ungir sjálfstæðismenn jafnframt á landsfund Sjálfstæðisflokksins, sem hefst í dag, að taka málið upp auk þess sem þeir hvetja fulltrúa flokksins á Alþingi til að beita sér í málinu, líkt og þingmaður flokksins, Unnur Brá Konráðsdóttir hefur gert.

„Sjálfstætt og fullvalda Ísland hefur ávallt verið grunnstef sjálfstæðisstefnunnar og mun vera það um alla framtíð,“ segir að lokum í ályktun SUS.