Pólitísk óvissa er gríðarleg í einni mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar um þessar mundir. Ástæðan er sú að sumir stjórnmálaflokkar, sem vilja láta taka sig alvarlega, hafa haft það á stefnuskrá sinni að svipta útvegsmenn aflaheimildum og flytja eignarhald á honum til ríkisins með svokallaðri fyrningarleið.

Þetta kemur fram í ályktun frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS) um fyrningarleið ríkisstjórnarinnar.

Ungir sjálfstæðismenn segja að með fyrningarleiðinni myndi ríkið stofna til bótaskyldu sem gæti numið hundruðum milljarða króna. Þjóðin þyrfti því að gjalda það dýru verði ef fyrningarleið væri farin.

„Rökin fyrir fyrningarleiðinni eru þau að útvegsmenn hafi fengið aflaheimildir gefins og að slíkt hafi falið í sér mikið óréttlæti enda eigi þjóðin að vera eigandi auðlindarinnar. Slík svipting er sögð standast eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, einkum ef það gerist á löngum tíma,“ segir í ályktun SUS.

„Staðreyndin er hinsvegar sú að 90% aflaheimilda hefur skipt um eigendur síðan núverandi kerfi var tekið upp árið 1984. Mikill meirihluti útvegsmanna hefur því keypt aflaheimildirnar, og veðsett eignir sínar og jafnvel heimili, til að standa straum af kaupverði. Það blasir við að það felst mikið óréttlæti í því að svipta menn eignum sem þeir hafa keypt, hefur skapað þeim atvinnu, og skilja menn eftir með skuldir, allt til þess að úthluta aflaheimildum til þeirra sem ekki sýndu sama áræði. Slíkt stenst aldrei eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, jafnvel þótt það yrði gert á löngum tíma. Friðhelgi eignarréttarins er fortakslaus og rennur ekki út með tímanum.“

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að mikilvægt sé að eyða þeirri pólitísku óvissu sem gildi um eignarrétt yfir auðlindum sjávar. Það sé löngu tímabært að stjórnmálamenn og almenningur viðurkenni að einstaklingseignarréttur útvegsmanna sé best til þess fallinn að tryggja hagkvæma og sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar til framtíðar.

„Því öflugri sem útvegurinn er því meira getur hann skilað þjóðinni í auknum gjaldeyris- og skatttekjum,“ segir í ályktun SUS.

„Hagsmunum þjóðarinnar er því best borgið með því að viðurkenna einstaklingseignarréttinn á þessu sviði eins og öllum öðrum.“