Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) harmar þær „öfgabreytingar“ sem nú er í fullri alvöru rætt um að keyra í gegnum Alþingi örskömmu fyrir kosningar en þar er átt við breytingar á kosningalögum og ritun nýrrar stjórnarskrár.

„Frá því að sú minnihlutavinstristjórn sem nú fer með stjórn landsmála tók við völdum hafa afdrifarík frumvörp verið afgreidd sem lög frá Alþingi á örskömmum tíma. Er þar skemmst að minnast frumvarps um Seðlabanka Íslands, sem fól í sér grundvallarstefnubreytingu á fyrirkomulagi peningamála þjóðarinnar,“ segir í ályktun frá SUS.

„Á sama tíma er rætt um breytingar á kosningalögum og ritun nýrrar stjórnarskrár. Svo virðist sem sá umræðutími sem málum sé ætlað að fá í þinginu séu í öfugu hlutfalli við mikilvægi þeirra og áhrif á hagi þjóðarinnar til frambúðar.“

Fram kemur í ályktun SUS að þrátt fyrir að íslenska hagkerfið, fyrirtækin og heimilin, hafi verið greitt þungt högg á undanförnum mánuðum réttlæti það ekki algera gjörbyltingu á grunnstoðum samfélagsins án nokkurrar umræðu eða tilrauna til breiðrar samstöðu.

„Svo virðist sem ríkjandi stjórn hafni yfirvegaðri og opinskárri umræðu. Þetta sást glögglega þegar þingfundi var einfaldlega frestað þegar ekki fékkst undanbragðalaus stuðningur þingsins við seðlabankafrumvarp Samfylkingarinnar,“ segir í ályktuninni.

„Krafan um tafarlausar aðgerðir stjórnvalda er skiljanleg og eðlileg. Hins vegar mega þau vopn sem lýðræðið veitir ekki snúast í höndum okkar. Með þeim vinnubrögðum sem núverandi stjórn viðhefur er raunveruleg hætta á því að þau verðmæti sem við metum mest og vestrænt lýðræði hvílir á verði fótum troðin ef slakað er á kröfum um virðingu fyrir lýðræðislegum stjórnarháttum, lögum og mannréttindum.“