Þrátt fyrir dómsagspár og stóryrtar yfirlýsingar stjórnarliða er ljóst að íslenskar auðlindir verða ekki fluttar úr landi með því að erlendir aðilar kaupi tímabundin nýtingarrétt á þeim. Það ætti hverjum þeim sem ekki hefur blindast af pólitísku ofstæki í garð viðskipta að vera ljóst.

Þetta segir meðal annars í ályktun Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS)þar sem lýst er yfir miklum vonbrigðum með vinnubrögð ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna í málefnum tengdum kaupum Magma Energy á hlut í HS Orku.

Stjórn ungra sjálfstæðismanna segist fagna því að erlendir aðilar sjái hag sinn í því að fjárfesta hér á landi og að nýtingarréttur auðlinda sé í höndum einkaaðila, hvers lenskir sem þeir eru.

„Það er og hefur ávallt verið eindregin skoðun ungra sjálfstæðismanna að einkaaðilar fari betur með auðlindir eins og núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi ber glöggt með sér,“ segir í ályktun SUS.

„Framganga stjórnarliða í fyrrnefndu máli og þá sérstaklega ráðherra ríkisstjórnarinnar er þeim ekki sæmandi. [...] Svo virðist sem stjórnarliðar í ríkisstjórn átti sig ekki á því að Magma Energy mun aðeins eiga nýtingarrétt að auðlindinni, en ekki auðlindina sjálfa.“

Þá telja ungir sjálfstæðismenn undarlegt að lagst sé gegn því að útlendingar eigi fyrirtæki á Íslandi en „það ætti í raun að vera fagnaðarefni fyrir Ísland að erlend fyrirtæki vilji á annað borð fjárfesta í ríki þar sem skatta- og viðskiptaumhverfið er eins fráhrindandi og hér á landi,“ segir í ályktun SUS.

Loks segja ungir sjálfstæðismenn að eitt helsta forgangsmál ríkisstjórnarinnar eigi að vera að skapa umgjörð til að byggja  upp atvinnulífið á ný. Með aukinni atvinnu sé aðeins hægt að tryggja aukna velferð.

„Ríkisstjórnin getur ekki eytt atvinnuleysi til langs tíma með opinberum framkvæmdum. Með vinstri flokka við völd, sem ganga gegn öllu einkaframtaki, mun íslensk þjóð seint reisa efnahag sinn við á nýjan leik,“ segir í ályktun SUS

„Ríkisstjórnin hefur farið kolrangar leiðir í þessum efnum. Í því árferði sem nú ríkir er nauðsynlegt að fjármögnun í formi erlends gjaldeyris eigi sér stað til að verkefni, svo sem virkjanaframkvæmdir, geti hafist og skapað atvinnu og aukið velferð að nýju.“