Ólafur Örn Nielsen, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS), afhenti í dag Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, ítarlegar sparnaðartillögur ungra sjálfstæðismanna á fjárlögum næsta árs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUS en þetta er annað árið í röð sem ungir sjálfstæðismenn kynna sparnaðartillögur sínar.

„Stjórn SUS telur að vel sé hægt að spara í rekstri ríkisins og leggur til að útgjöld ríkisins verði lækkuð um 49,9 milljarða króna í beinum niðurskurði, án þess að hróflað verði við velferðar-, heilbrigðis- eða menntakerfinu,“ segir í tilkynningunni.

Þess utan er gerð krafa um 5% flata hagræðingu á eftirstandandi liði. Að því viðbættu myndu útgjöld ríkisins lækka um 54,5 milljarða á næsta ári.

„Verði farið að tillögum SUS má gera ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs án skattahækkana vinstristjórnarinnar,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

„Fjárlagafrumvarp fjármálaráðherra fyrir árið 2011 gerir ráð fyrir rúmlega 36 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs. Gangi sú spá eftir verður það þriðja árið í röð sem ríkissjóður er rekinn með halla undir stjórn vinstrimanna, þrátt fyrir stórfelldar skattahækkanir sl. tvö ár.“

Tillögum ungra sjálfstæðismanna hefur jafnframt verið komið til allra þingmanna fjárlaganefndar sem og þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Þær fela meðal annars í sér að Neytendastofa, Lýðheilsustöð, Jafnréttisstofa, embætti Ríkissáttasemjara, Samkeppniseftirlitið, Ferðamálastofa „og aðrar óþarfar stofnanir verði lagðar niður,“ eins og það er orðað í tilkynningu SUS.

Þá er lagt til að öll listasöfn, leikhús, sinfóníuhljómsveitin og aðrar menningarstofnanir verði ýmist lagðar niður eða afli sér fjár með öðrum hætti en úr vasa skattgreiðenda. Einnig er lagt til að hætt verði við byggingu tónlistarhússins í Reykjavík.

Ungir sjálfstæðismenn leggja jafnframt til að RÚV verði lagt niður eða selt, og um leið tekið af fjárlögum, umsókn Íslands að ESB verði dregin til baka og að öll skógræktarverkefni ríkisins verði lög niður, þ.m.t. Landgræðsla ríkisins og Skógrækt ríkisins.

Þá er einnig lagt til að öll framlög til stjórnmálaflokka verði afnumin sem og ráðstöfunarfé ráðherra.

Loks leggja ungir sjálfstæðismenn til að jöfnunarsjóður sveitafélaga verði lagður niður undir eins auk þess sem stjórnlagaþingið verði slegið af.

Sjá tillögur SUS í heild sinni (pdf skjal)