Í ákvörðun um að leggja fram tillögu um að fjórir fyrrverandi ráðherrar verði ákærðir fyrir Landsdóm flest pólitískur hráskinnaleikur þeirra sem vilja hylja þá staðreynd að vinstristjórnin logar stafnanna á milli í innanhússátökum og hefur ekki stigið nein mikilvæg skref í þá átt að reisa við atvinnulífið eða heimilin.

Þetta kemur fram í ályktun Sambands ungra sjálfstæðismanna sem samþykkt var í gær.

Ungir sjálfstæðismenn segja að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar beri vissulega ríka ábyrgð á vissum þáttum sem tengjast efnahagshruninu haustið 2008. Hins vegar sé ólíðandi að ætla sér að refsa ráðherrum fyrir efnahagshrun hvers ábyrgð liggur víða.

„Þeir ráðherrar, sem lagt er til að ákærðir verði, hafa þegar sætt pólitískri ábyrgð með því að hverfa af vettvangi stjórnmálanna,“ segir í ályktun SUS.

„Ekkert hefur komið fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis eða skýrslu þingmannanefndarinnar sem bendir til annars en að ráðherrarnir hafi sinnt störfum sínum eftir bestu vitund. Ákærur sem þessar eru atlaga að stjórnmálum og þeir sem þar starfa í dag og þeim sem hyggjast starfa þar í framtíðinni. Slíkt er algjörlega óliðandi og ef sá vegur verður rataður eru íslensk stjórnmál á leiðinni í miklar villigötur.“

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að málflutningur forsvarsmanna Vinstri grænna í þessu máli beri merki um hefndarþorsta og ofstopa. Í öðru orðinu tali leiðtogar flokksins með hryggum rómi um sorgina sem felst í því að ákæra fyrrverandi ráðherra en á hinn bóginn bregðist þeir illa við málefnalegri gagnrýni á störf þingmannanefndarinnar.

„Ljóst er að lög og almenn regla um réttarríki er látin víkja fyrir pólitískum hefndarþorsta,“ segir í ályktuninni.

Þá segir að lagaákvæði um Landsdóm hafi ekki sætt efnislegri endurskoðun síðan Ísland gerðist aðili að Mannréttindasáttmála Evrópu og mannréttindakafli stjórnarskrár var endurskoðaður. Vafi leiki því á um hvort ákvæðin standast stjórnarskrá, enda séu refsiheimildirnar óskýrar og málsmeðferðin óvanaleg. Þá segir að ráðherrar séu ekki undanþegnir þeirri meginreglu réttarríkisins að vafa skuli skýra sakborningi í hag.

„Þess vegna á Alþingi ekki að ákæra ráðherrana,“ segir í ályktuninni.

Þá segir einnig:

„Forsætisráðherra opinberaði tvískinnung sinn þegar hún reyndi að bera sérstaklega í bætifláka fyrir forvera sinn, fyrrverandi formann Samfylkingarinnar, í ræðu sinni á Alþingi á mánudaginn. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ber auðvitað mesta ábyrgð á því að upplýsingum var vísvitandi haldið leyndum fyrir viðskiptaráðherra. Hún hefði sem oddviti Samfylkingarinnar í ríkisstjórn átt að skipta honum út, þar sem hún bar sýnilega ekkert traust til hans. Að því sögðu getur Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra ekki afsakað ábyrgð sína með vísun til upplýsingaleysis samflokksformanns hans. Viðskiptaráðherra er yfirmaður bankamála og ber ábyrgð á Fjármálaeftirlitinu, sem á að hafa eftirlit með athöfnum fjármálastofnana landsins.

Eðlilegast væri til framtíðar að afnema lagaákvæði um Landsdóm, þannig að ráðherrar yrðu framvegis saksóttir af hinu almenna ákæruvaldi, eftir almennum reglum, fyrir almennum dómstólum.“