Ungir sjálfstæðismenn vilja að allar takmarkanir á fjárfestingum erlendra aðila hérlendis verði felldar brott.

Þetta kemur fram í ályktun frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS) sem send var út í dag.

„Það er mikilvægt fyrir Ísland að fá nýtt fjármagn inn í landið og því ber að taka öllum erlendum fjárfestingum fagnandi,“ segir í ályktuninni.

„Hvort sem eigendur fyrirtækja eða fasteigna eru íslenskir eða erlendir, þurfa þeir að sjálfsögðu að fara að lögum og reglum, svo sem skipulagslögum og lögum um umhverfismat.“

Þá hafna ungir sjálfstæðismenn öllum hugmyndum um að það skilyrði eigi að vera fyrir fjárfestingu erlendra aðila að Íslendingar geti fjárfest með sambærilegum hætti í heimalandi viðkomandi. Æskilegt sé að sem flest ríki ýti úr vegi takmörkunum á fjárfestingum, en meiri hagsmunir séu fólgnir í því fyrir Ísland að útlendingar geti fjárfest hérlendis, heldur en Íslendingar erlendis.

„Íslenskir fjármagnseigendur verða að vera í stakk búnir til að keppa við erlent fjármagn og eiga ekki að geta falið sig undir verndarvæng stjórnvalda,“ segir í ályktuninni.