Styrkir til mjólkurframleiðslu eru eitt það augljósasta í fjárlögum ríkisins sem ber að skera niður. Styrkirnir nema hátt í 6 milljörðum króna og hafa ungir sjálfstæðismenn áður lagt það til að kerfið verði afnumið í skrefum.

Þetta kemur fram í ályktun Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) þar sem SUS gagnrýnir harðlega hugmyndir sem fram koma í mjólkurfrumvarpi Jóns Bjarnasonar, landbúnaðarráðherra.

„Með frumvarpinu er verið að treysta einokunarstöðu þeirra sem fyrir eru á markaðnum og hindra að nýir aðilar geti komið að framleiðslunni. Það skýtur skökku við að ríkisvaldið ætli sér að standa í vegi fyrir frumkvæði og athafnakrafti nýrra framleiðenda á tímum sem þessum,“ segir í ályktuninni.

„Mjólk er neysluvara eins og hver annar drykkur og ekki er þörf á sérstöku kvótakerfi í kringum framleiðslu á henni. Ekki frekar en það er þörf á slíku kerfi vegna framleiðslu á appelsínusafa.  Það er ekki réttlætanlegt að skattgreiðendur greiði með tvenns konar hætti fyrir mjólk frekar en aðra vöru.“

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að ríkið hafi búið bændum þetta ósanngjarna kerfi og hvetja jafnframt alþingismenn til að losa bændur úr þeirri fátæktargildru sem kerfið er. Verði frumvarpið hins vegar samþykkt verði sú gildra treyst enn frekar.

„Þá veldur það töluverðum vonbrigðum að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi samþykkt frumvarpið úr nefnd og til standi að styðja afgreiðslu þess á Alþingi,“ segir jafnframt í ályktuninni.

„Ungir sjálfstæðismenn telja það ótækt með öllu að menn sem kosnir eru á þing fyrir flokk sem í það minnsta segist hafa einstaklings- og atvinnufrelsi sem sína grunnstefnu skuli ætla sér að styðja frumvarp sem með augljósum hætti brýtur gegn þessum grunngildum.“