Ungir sjálfstæðismenn telja þær skattahækkana hugmyndir, sem fram hafa komið frá starfshópi fjármálaráðuneytisins, fráleitar og lýsandi dæmi um þá fátæklegu hugmyndafræði að horfa á skattkerfi ríkisins sem tekjujöfnunartæki, með þeim afleiðingum að enginn skattgreiðandi er betur settur en fyrir jöfnunaraðgerðina.

Þetta kemur fram í ályktun frá Sambandi ungra Sjálfstæðismanna (SUS) þar sem lýst er eftir ríkisstjórn sem sýnir ábyrga stjórn við gerð fjárlaga „en veltir ekki eigin vanda yfir á skattgreiðendur,“ eins og það er orðað í ályktun SUS.

„Hugmyndir um auknar álögur á fyrirtæki hafa það eitt í för með sér að hagvöxtur dregst enn frekar saman, þar sem fyrirtækin hafa þá minni möguleika á að auka fjárfestingar og þannig skapa störf,“ segir í ályktuninni.

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að tillaga um sérstakan bankaskatt muni einungis bitna á viðskiptavinum bankanna í formi lægri ávöxtunar á sparifé, eða hækkandi lántökukostnaðar. Aukinn fjármagnstekjuskattur, samhliða ýmsum skerðingarhlutföllum sökum vaxtatekna geri það að verkum að nánast enginn ávinningur verður af því að eiga sparifé á bankabók.

Þá segja ungir sjálfstæðismenn jafnframt dapurlegt að ríkisstjórnin hafi endurvakið þann „ósanngjarna skatt sem eignarskatturinn er og gælir við að hækka hann enn frekar. Það gerir tvísköttun á engan hátt sanngjarnari að kalla skattinn auðlegðarskatt.“

„Ungum sjálfstæðismönnum þykja hugmyndir um að draga úr arðsemi einstakra atvinnugreina með sérstakri skattlagningu umfram aðrar illskiljanlegar. Sérstakt auðlindagjald á þá sem skapa verðmæti úr landsins gæðum mun einungis hamla hagvexti. Aukin arðsemi fyrirtækja skilar sér á endanum til þjóðfélagsins í formi nýfjárfestinga, hækkun launa og nýjum störfum,“ segir í ályktun SUS.

Í ályktuninni segir einnig að erfðafjárskattur sé eitthvert ósanngjarnasta form skattlagningar sem þekkist. Í nær öllum tilfellum sé fólk að greiða erfðaskatt af einhverju sem bæði er búið að greiða tekju- og virðisaukaskatt af, auk þess í sumum tilfellum gamla eignaskattinn og nú hinum nýja auðlegðarskatt.

Þá hvetja ungir sjálfstæðismenn Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra til að skoða heldur þær niðurskurðatillögur sem þeir afhentu þingheimi fyrir tæplega ári síðan í stað þess að einblína á hækkun skatta. Í tillögum SUS var gert ráð fyrir að minnka halla ríkissjóðs um 64,8 milljarða, án skattahækkana.

„Beina ungir sjálfstæðismenn því jafnframt til vinstri flokkanna að besta leiðin til að auka skatttekjur ríkissjóðs er að stækka skattstofninn. Sú stækkun næst aðeins með aukinni atvinnusköpun á vegum einkaframtaksins. En þvert á móti, þá hefur ríkisstjórnin hvað eftir annað brugðið fæti fyrir áætlanir einkaaðila um fjárfestingar og atvinnusköpun. Með endalausum skattahækkunum og auknu flækjustigi mun skattstofninn smám saman eyðast,“ segir að lokum í ályktuninni.