Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) fagnar þeim breytingum sem Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra hefur lagt til á sviði heilbrigðismála.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá SUS. Þar segir að með tillögunum sé gerð tilraun til þess að ná fram varanlegum umbótum á rekstri heilbrigðisstofnana á Íslandi í því skyni að auka skilvirkni og hagræði. Ennfremur:

„Mikilvægt er, einkum um þessar mundir, að stjórnvöld leiti leiða til þess að draga úr kostnaði. Heppilegast er ef slíkur sparnaður getur náðst fram með því að gera breytingar sem fela í sér  varanlega hagræðingu í stað þess að framkvæmdum sé frestað eða að flatur niðurskurður sé komi í stað raunverulegrar forgangsröðunar. Tillögur heilbrigðisráðherra miða að því marki. Þannig eru hagsmunir sjúklinga og skattgreiðenda settir ofar hagsmunum stofnana.

Hlutverk stjórnmálamanna er að forgangsraða. Þær ákvarðanir sem heilbrigðisráðherra hefur tekið um hagræðingu heilbrigðiskerfisins eru ekki óumdeildar eða óumdeilanlegar. Ungir sjálfstæðismenn fagna því að ráðamenn þjóðarinnar hafi þor til að taka erfiðar en nauðsynlegar ákvarðanir. Ennfremur skorar stjórn SUS á þingmenn og ráðherra að skjóta sér ekki undan þeirri ábyrgð að taka erfiðar ákvarðanir í því árferði sem nú ríkir.“