Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS) hefur sent umboðsmanni Alþingis bréf vegna ummæla fjármálaráðherra í viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 á Bylgjunni, sunnudaginn 10. janúar síðastliðinn.

Fjármálaráðherra sagði þar að beita ætti ríkissjóði til að fjármagna sérstaklega áróður ríkisstjórnarinnar fyrir samþykki svokallaðs nýs Icesave frumvarps í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SUS en stjórn sambandsins leggur til við umboðsmann að hann skoði hvort fjármálaráðherra sé heimilt að ráðstafa opinberum fjármunum með þessum hætti. Er vísað m.a. til jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, hugsanlegs brots á þrískiptingu ríkisvalds og þess, hvort ráðstöfunin yrði ekki fordæmisgefandi þegar kemur að öðrum þjóðaratkvæðagreiðslum.

„Í því sambandi megi benda á fyrirhugaða kosningu um samning um inngöngu í Evrópusambandið,“ segir í tilkynningunni.

„Með bréfi sínu til umboðsmanns Alþingis vill stjórn SUS ekki síst minna á að Steingrímur J. Sigfússon gegnir stöðu fjármálaráðherra fyrir hönd allra landsmanna. Peningar ríkissjóðs eru ekki eign fjármálaráðherra, eða þeirra sem fylgja honum að málum, heldur ber ráðherra að hafa umsýslu með þeim fjármunum fyrir hönd landsmanna allra. Vilji fjármálaráðherra kosta auglýsingar eða annarskonar áróður, fyrir samþykkt Icesave laganna í þjóðaratkvæðagreiðslu, þurfa þeir fjármunir að koma úr öðrum vasa en ríkissjóðs."