Í Vestmannaeyjum er nú hægt að fá sushi á veitingastað en veitingastaðurinn Captain Cool opnaði fyrir þremur vikum í Eyjum. Hingað til hafa bakkar verið sendir ofan af landi á fimmtudögum og föstudögum og hafa þeir þá fengist í Vöruvali.

Viðtökurnar á Captain Cool hafa verið góðar að sögn Antons Þórs Sigurðssonar eiganda. „Við bjóðum upp á frábæra sjávarrétti, sushi auðvitað og síðan er kjötið beint frá býli,“ segir Anton Þór.

Og það er mikið að gera í ferðamannaiðnaðinum í Vestmannaeyjum. „Fólk er farið að hringja og panta gistingu fyrir Pæjumótið, Goslokin og Þjóðhátíð fyrir sumarið 2014,“ segir Adda Jóhanna Sigurðardóttir, eigandi Hótel Vestmannaeyja. Adda Jóhanna segir að yfir venjulega helgi sé meirihluti gesta erlendir ferðamenn en í kringum Pæjumótið, Goslokin og Þjóðhátíð séu gestir nær eingöngu Íslendingar. „Það er ekki mikill munur á gestunum en útlendingarnir fara þó fyrr út á morgnana en Íslendingarnar,“ segir Adda Jóhanna hlæjandi.