Suður-Kórea er síðasta ríkið til að kynna til sögunnar björgunarpakka fyrir fjármálamarkaði sína. Pakki S-Kóreumanna er 130 milljarða dala virði, en aðgerðirnar felast í því að tryggja erlend lán fyrirtækja landsins og endurfjármagna fjármálafyrirtæki.

Í S-Kórea er fjórða stærsta hagkerfi Asíu og landið er talið einna viðkvæmast Asíuríkja fyrir lánsfjárkreppunni.

100 milljarðar dala fara í að tryggja erlend lán suður-kóreskra fjármálafyrirtækja en 30 milljarðar í fjármagnssprautu fyrir fjármálakerfið. Einnig hyggjast stjórnvöld leggja litlum fyrirtækjum til samtals 9 milljarða dala í lán.

Frekari aðgerða er að vænta, en fjármálaráðherra Suður-Kóreu sagði er hann tilkynnti ofangreindar aðgerðir að í vikunni sem er að hefjast yrði annar björgunarpakki, fyrir byggingariðnað landsins, kynntur.

Nýmarkaðsríki hafa átt í erfiðleikum með að ná í Bandaríkjadali að undanförnu. S-Kóresk stjórnvöld ákváðu því að koma sínum bönkum til hjálpar og gáfu um leið út að þau myndu taka fleiri skref til bjargar bönkunum ef til þyrfti.

Reuters greindi frá.