Enn er of snemmt að meta tjón vegna jarðskjálftans á Suðurlandi í gær, fimmtudag, en Suðurlandsskjálftarnir í júní árið 2000 kostuðu Viðlagatryggingar Íslands að minnsta kosti 2,4 milljarða.

Kostnaðurinn var tekinn saman í skýrslu nefndar iðnaðar- og viðskiptaráðherra á árinu 2002. Fram kemur í skýrslunni að tilkynnt hafi verið um tjón af völdum skjálftanna á 2.319 stöðum.

Í 301 tilfelli var ekki um bótaskylt tjón að ræða, samkvæmt skýrslunni. Þessi kostnaður segir þó ekki alla söguna því skemmdir á húsnæði voru að koma fram árin á eftir. Skjálftinn í gær var 6,1 á Richter en skjálftarnir fyrir átta árum mældust allt að 6,6 stig.

Manntjón varð og hús og bæir hrundu

Frá örófi alda hafa jarðskjálftar dunið yfir Suðurland með reglulegu millibili en fyrsti skjálftinn sem heimildir eru til um er frá árinu 1164.  Heimildir um skjálftana og tjón af völdum þeirra eru þó óljósar allt til 17. aldar. Manntjón varð í mörgum þeirra og hús og bæir hrundu.

Tjón af völdum skjálftans árið 1912, þeim stærsta fyrir 2000, varð einnig umtalsvert. Þrjátíu bæir hrundu frá Þjórsá og að Eyjafjöllum. Eitt barn lést í skjálftanum þegar sperra féll á það, þar sem það sat í örmum móður sinnar.

Annál um Suðurlandsskjálfa má finna hér.