Aðeins 13 nýir fólksbílar seldust í fyrstu viku desembermánaðar og þar af seldust 7 Suzuki bílar eða ríflega helmingur seldra bíla á Íslandi. Eftir því sem komist verður næst hefur það ekki gerst áður í sögunni að eitt bílaumboð sé með meira en helming sölunnar þó auðvitað verði að horfa til þess að sölutölur eru óvenju lágar.

Að sögn Úlfars Hinrikssonar, framkvæmdastjóra Suzuki á Íslandi, er ljóst að sú litla sala sem nú fer fram beinist að sparneytnum og ódýrum bílum. Þess njóti þeir. Þess má geta að Suzuki var í 2. sæti yfir mest seldu bíla nóvembermánaðar og í 3. sæti í október. Þá, rétt eins og nú, var ákaflega lítil sala. Aðeins seldust 74 bílar í nóvember.

Að sögn Úlfars verður sala næsta árs döpur, í mesta lagi væri hægt að vænta þess að þrjú eða fjögur þúsund bílar seldust.

Úlfar sagði að einnig væri nokkur sala í notuðum bílum hjá þeim og þar væri fólk að horfa til þess sama og í nýju bílunum, að fá sparneytna og ódýra bíla.