Í ljósi þess að Doha viðræðurnar sigldu í strand hafa Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) sent frá sér áskorun til stjórnvalda að láta þá niðurstöðu ekki tefja fyrir sér og hefjast þegar handa við að búa íslenskan landbúnað undir þær breytingar sem óhjákvæmilegar eru.

„Niðurstaðan er því mikil vonbrigði, þar sem um tíma vöknuðu vonir um að þjóðir heims væru að ná samkomulagi. Þessi niðurstaða er ekki síður mikil vonbrigði fyrir okkur Íslendinga. Niðurstaðan er slæm fyrir neytendur hér á landi, þar sem sú tollvernd sem íslenskar landbúnaðarvörur búa við, hefðu minnkað verulega. Niðurstaðan er vart sérstakt gleðiefni fyrir íslenskan landbúnað, þar sem greininni er enn haldið í óvissu um hvaða rekstrarumhverfi hún muni búa við á næstu árum. Fyrir íslenska verslun er þessi niðurstaða sérstök vonbrigði, þar sem enn verður bið á því unnt verði að bjóða neytendum upp á innfluttar vörur án þeirra ofurtolla sem nú eru lagðir á marga vöruflokka, einkum landbúnaðarvörur,“ segir í yfirlýsingu SVÞ.