Dr. Svafa Grönfeldt, fyrrverandi rektor Háskólans í Reykjavík, hefur verið ráðin yfir þróunarstjóri alþjóðlega lyfjatæknifyrirtækisins Alvogen.

Róbert Wessman, fyrrverandi forstjóri og aðal eigandi Actavis Group, er þar stjórnarformaður og leiðir sókn félagsins á alþjóðlega vísu. Þá er Doug Drysdale, sem hafði umsjón með yfirtökum og samruna hjá Actavis, nú forstjóri Alvogen.

Auk Svöfu hefur félagið tilkynnt að Elin Gabriel hafi verið ráðin framkvæmdastjóri fyrirtækisins, en hún var áður hjá Teva Pharmaceuticals í Króatíu. Einnig hefur Kevin Bain verið ráðinn fjármálastjóri, en hann starfaði um árabil hjá Actavis í Bandaríkjunum.

Alvogen er byggt á grunni Norwich Pharmaceuticals í New York sem á um 120 ára sögu að baki. Höfuðstöðvarnar eru í Parsippany í New Jersey, en félagið er nú með starfsemi í átta löndum. Í júlí 2009 voru kynntar áætlanir um að auka starfsemina á alþjóðlega vísu og að koma fyrirtækinu í hóp tíu stærstu fyrirtækja heims á sínu sviði á fimm árum. Er sú sókn leidd af Róbert Wessman.