Fjórir af fimm stjórnarmönnum Icelandair Group sækjast eftir endurkjöri í stjórn félagsins á aðalfundi þann 8. mars næstkomandi. Ásthildur Margrét Otharsdóttir, sem setið hefur í stjórn Icelandair frá árinu 2012 er eini stjórnarmaðurinn sem ekki sækist eftir endurkjöri.

Þrjár vilja komast nýjar í stjórnina. Það eru þær Svafa Grönfeldt, fyrrverandi rektor HR og er formaður stjórnar MIT DesignX, viðskiptahraðals MIT háskóla í Boston, Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands, og Guðný Hansdóttir, stjórnarmaður í Frumherja og fyrrverandi mannauðsstjóri Inness og Skeljungs.

Fyrir eru í stjórninni Úlfar Steindórsson stjórnarformaður, Ómar Benediktsson varaformaður, Heiðrún Jónsdóttir og Guðmundur Hafsteinsson.

Þá sækjast Helga Árnadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, og Hjörleifur Pálsson, formaður háskólaráðs HR, eftir að sitja í tilnefningarnefnd félagsins.

Nánari upplýsingar um frambjóðendurnar má finna hér að neðan.

Guðmundur Hafsteinsson

Guðmundur Hafsteinsson leiðir vöruþróun Google Assistant hjá Google.  Hann hóf störf hjá Google árið 2014 við samruna Google og Emu, félags sem hann stofnaði árið 2012.  Áður en Guðmundur stofnaði Emu var hann framkvæmdastjóri hjá Siri og starfaði þar áfram eftir samruna við Apple.  Þar á undan starfaði Guðmundur sem vörustjóri hjá Google við Google Maps fyrir farsíma og Google Voice Search.  Guðmundur er með MBA gráðu frá MIT og  B.Sc gráðu í rafmagns- og tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Guðmundur hefur setið í stjórn Icelandair Group frá árinu 2018.

Guðný Hansdóttir

Guðný Hansdóttir var framkvæmdastjóri mannauðssviðs Innness frá 2014-2018 og mannauðsstjóri hjá Skeljungi frá 2009-2014. Áður var hún framkvæmdastjóri erlendrar starfsemi hjá Pennanum Officeday, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Air Atlanta og forstöðumaður flugliða Icelandair frá 1999-2004.  Guðný hefur setið í stjórn Parlogis og Mjallar Frigg og er stjórnarmaður Frumherja frá 2015.  Guðný er með B.Sc gráðu og MBA frá Florida Institute of Technology.

Heiðrún Jónsdóttir

Heiðrún Jónsdóttir er lögmaður. Heiðrún er í stjórnarmaður í Íslandsbanka og er varaformaður stjórnar Lögmannafélags Íslands. Heiðrún var áður formaður stjórnar Lífeyrissjóðsins Gildi, Norðlenskra og Íslenskra Verðbréfa. Hún var áður í stjórn Símans hf. og Ístak. Frá árinu 2006 og til 2012 var Heiðrún var upplýsingafulltrúi Landssímans hf. frá 2001-2003, framkvæmdastjóri og meðeigandi á Lex lögmannstofu frá 2003-2005.  Þá var hún framkvæmdastjóri lögfræði og samskiptasviðs Hf. Eimskipafélags Íslands. Heiðrún er lögfræðingur frá Háskóla Íslands, héraðsdómslögmaður og hefur lokið stjórnendanámi frá IESE í Barcelona. Heiðrún hefur setið í stjórn Icelandair Group frá árinu 2018.

Ómar Benediktsson

Ómar Benediktsson er forstjóri Farice ehf.  Hann er stjórnarmaður í Landsneti hf. og í Húsafell Resort ehf.  Ómar hefur gegnt ýmsum stjórnunarstöðum í ferðaþjónustu og flugrekstri síðastliðin 30 ár, meðal annars sem forstjóri Island Tours og hjá Íslandsflugi, Air Atlanta og SmartLynx, sem og setið í stjórnum margra félaga í greininni.  Ómar er með Cand. Oecon gráðu frá Háskóla Íslands.  Ómar hefur verið stjórnamaður í Icelandair Group síðan 2017.

Svafa Grönfeldt

Svafa Grönfeldt er formaður stjórnar MIT DesignX sem er nýjasti viðskiptahraðall MIT háskóla í Boston og starfar hún jafnframt við nýsköpunarsetur skólans. Hún er ein af stofnendum The MET Fund sem er fjárfestingasjóður fyrir sprotafyrirtæki á sviði hönnunar og tækni í Bandaríkjunum. Svafa hefur setið í stjórn Össurar síðan 2008. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Alvogen og þar áður sem rektor Háskólans í Reykjavík og aðstoðarforstjóri Actavis. Hún hefur lokið doktorsprófi frá London School of Economics í vinnumarkaðsfræðum.

Úlfar Steindórsson

Úlfar Steindórsson er forstjóri Toyota á Íslandi.  Hann var forstjóri Primex ehf á Siglufirði frá 2002-2004 og framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs Atvinnulífsins frá 1999-2002.  Úlfar hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja á liðnum árum.  Úlfar er með Cand.Oecon gráðu frá Háskóla Íslands og MBA frá Virginia Commonwealth University.  Hann hefur verið stjórnarmaður í Icelandair Group frá september 2010.

Þórunn Reynisdóttir

Þórunn hefur verið forstjóri Ferðaskrifstofu Íslands frá árinu 2015.  Hún starfaði hjá ISAVIA á árunum 2014 og 2015 og var framkvæmdastjóri hjá Iceland Express frá 2011-12. Þórunn hefur gegnt ýmsum stjórnunarstöðum í ferðaþjónustu síðastliðin 30 ár.  Þórunn stundaði rekstar-og viðskiptanám hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.