*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 17. febrúar 2021 17:49

„Svakalega sóun í opinberum rekstri“

Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Póstsins, segir að mörg opinber fyrirtæki og stofnanir séu algjörlega pikkföst í hjólförum.

Ritstjórn
Birgir Jónsson.
Haraldur Guðjónsson

Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Íslandspósts, segir „svakalega sóun í opinberum rekstri á Íslandi“ og að mörg opinber fyrirtæki og stofnanir séu algjörlega pikkföst í hjólförum sem ekki sé hægt að komast upp úr. 

Þetta kemur fram í Linkedin færslu frá Birgi, þar sem hann lýsir yfir ánægju með viðtal Einars Þorsteinssonar við Björn Zoega, forstjóra Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi, sem birtist í Kastljósi í gærkvöldi. Í viðtalinu fagnar Björn því að taka eigi upp hið svokallaða DRG fjármögnunarkerfi á Landspítalanum og sjúkrahúsinu á Akureyri, en að hans sögn byggja langflest lönd í Evrópu á umræddu kerfi.

Í færslu Birgis segir að starfsfólk leggi sig allt fram og kerfið sé borið uppi með fórnum einstakra starfsmanna sem endi svo í kulnun og brottfalli úr starfi. „Þetta er augljóst í heilbrigðiskerfinu og reyndar víðar. Vítahringur.“ 

Það sé ekki sóun að vera með gott fólk í vinnu og að borga þeim fín laun heldur sé mikil sóun í sjálfu kerfinu, umgjörðinni og hugarfarinu.  

„Það þarf nýja nálgun til að forðast að krafan á opinbert fé aukist ár frá ári án þess að staðan batni nokkuð eins og raunin hefur verið. Þetta viðtal er ágætis dæmi um nýja nálgun sem ætti að notast í öllum ríkisrekstrinum,“ segir Birgir í færslunni. 

Í niðurlagi Linkedin-færslunnar segir hann að áhersla eigi að vera á gæði þjónustunnar við almenning og góðan rekstur. „Og út með pólitíska hagsmuni“.