„Að slíta viðræðum nú er glapræði,“ segir Svana Helen Björnsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins (SI). Hún opnaði þéttsetið Iðnþing samtakanna sem hófst á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Svana Helen, sem var endurkjörinn formaður SI í dag, kom í erindi sínu m.a. inn á aðildarviðræður stjórnvalda við Evrópusambandið og lagði ríka áherslu á að landið megi ekki einangrast.

EES-samningurinn mun fjara út

„Ísland getur ekki verið einangrað. Afraksturinn er hungur og dauði. Við eigum að nýta okkur það val sem við höfum. Nýta það sem aðrir bjóða og bjóða þeim það sem við gerum best. Undirstaða okkar er EES-samningurinn og með honum fengið við áður óþekkt frelsi til athafna. Niðurstaðan urðu líka uppgangstímar og við döfnum best við mikið mikið athafnafrelsi,“ sagði Svana Helen og sagði svo óvíst hvað muni gerast með tilkomu fríverslunarsamnings Evrópusambandsins og Bandaríkjanna sem nú er unnið að. Ekki sé víst hvort EES-ríkin fylgi með í samningagerðinni. Á endanum muni síðan EES-samningurinn fjara út og hagurinn sem fylgdi honum hverfa. Eitthvað þurfi að vera til staðar þegar það gerist.

Skammsýni stjórnmálamanna

„Ég tel það frumskyldu stjórnvalda að tryggja atvinnulífinu og viðskiptalífinu umhverfi sem nágrannalöndin búa við. Gangi það ekki tapar atvinnulífið,“ sagði hún og líkti aðstæður íslenskra fyrirtækja nú um stundir við mann sem er með aðra höndina bundna aftur fyrir sig. „Með þessu ástandi nú er öllu snúið á haus. Við þurfum að vega upp á móti fjarlægðinni með betri skilyrðum. En það er skrýtið hvað stjórnmálamenn eiga erfitt með að hugsa lengra en fjögur ár fram í tímann. Við þurfum á siðbót að halda og komast upp úr förunum,“ sagði hún.

Svana Helen var endurkjörin formaður Samtaka iðnaðarins á aðalfundi samtakanna í morgun með 96,5% greiddra atkvæða. Í stjórn samtakanna voru endurkjörin þau Andri Þór Guðmundsson, Guðrún Hafsteinsdóttir og Kolbeinn Kolbeinsson. Nýr í stjórn kemur Ragnar Guðmundsson, Norðuráli, en úr stjórn gengur Tómas Már Sigurðsson eftir sex ára stjórnarsetu. Fyrir í stjórn SI eru Bolli Árnason, Lárus Jónsson, Sigsteinn P. Grétarsson og Vilborg Einarsdóttir.