Umhverfisráðherra Íslands, Svandís Svavarsdóttir, hóf flutning sinnar þriggja mínútna ræðu á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn um kl. tvö í fyrrinótt að því er Pétur Reimarsson greinir frá á heimasíðu SA. Svandís ræddi um þá vá sem að mannkyninu og umhverfinu stafar og lagði áherslu á að bregðast verði við. Fáir eða engir voru í salnum segir Pétur.

Að sögn Péturs minntist Svandís á landgræðslu, skógrækt, endurheimt votlendis og mikilvægi fiskveiða. Sagði jafnframt að stefnt væri að kolefnissnauðu samfélagi og minntist á samgöngur og fiskveiðar í því sambandi. Svandís sagði alla raforkuframleiðslu á Íslandi vera úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Að lokinni ræðunni voru enn 30 manns á mælendaskrá.

Pétur segir ennfremur frá því að um miðjan dag í gær hafi fulltrúi Íslands tilkynnt að hann drægi til baka tillögu um að íslenska ákvæðið svokallaða skyldi einnig gilda á næsta tímabili Kyoto-bókunarinnar. ,,Það var nánast eini árangurinn sem náðist við að fækka umfjöllunarefnum á þeim fundi. Þetta var gert vegna þess að stjórnvöld meta ákvæðið óþarft eftir að ESB ákvað í vikunni að hefja samningaviðræður við Ísland um sameiginleg markmið í loftslagsmálum. Aldrei hefur undirritaður heyrt neinn agnúast út í tillöguna um íslenska ákvæðið á fundum loftslagsráðstefnunnar," segir Pétur.