Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, sat í borgarstjórn Reykjavíkur í tæp þrjú ár áður en hún fór út í landsmálin en fram að því hafði hún lítil afskipti haft af stjórnmálum, í það minnsta á opinberum vettvangi.

Nú varst þú kjörin í borgarstjórn fyrir tæpum 4 árum en um og eftir 100 daga meirihlutann svokallaða voru margir farnir að tala um þig sem eina af framtíðarleiðtogum Vinstri grænna. Af hverju hættir þú í borgarmálunum?

„Ég spyr mig nú oft að því sama,“ svarar Svandís í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Ég sé þó ekki eftir því þótt það sé mjög gaman að vera borgarfulltrúi. Maður er í mikilli nálægð við íbúa og þá þjónustu sem í boði er. En hins vegar urðu ákveðin straumhvörf í íslenskri pólitík þegar búsáhaldabyltingin átti sér stað. Ég byrjaði í pólitík 42 ára gömul þannig að ég hef ekki verið í stjórnmálum mjög stóran hluta ævinnar. Þarna varð til bylgja sem ég ákvað að taka þátt í og sé ekki eftir því. Það hafa líka verið forréttindi að starfa hér í ráðuneytinu.“

Aðspurð um þær væntingar sem gerðar hafa verið til hennar segist Svandís ekki hafa horft eða hugsað mikið um vegtyllur eða stöður. Fyrir henni vaki fyrst og fremst að hafa raunveruleg áhrif í pólitík.

Aðspurð um það hvort farið sé að hitna undir núverandi formanni VG, Steingrími J. Sigfússyni, svarar Svandís því neitandi. Hún segir Steingrím vera sterkan leiðtoga og sú skoðun nái langt út fyrir flokkskjarna VG.

„Það hafa verið mikil forréttindi að fá að starfa með honum og öðrum félögum mínum og ég er viss um að við eigum eftir að hugsa til þessa tíma með miklu stolti þegar við höfum komið okkur í gegnum erfiðleikana með samstöðu og seiglu,“ segir Svandís.

_____________________________

Nánar er rætt við Svandísi í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Þar tjáir Svandís sig meðal annars um gagnrýni á hennar störf sem umhverfisráðherra, mögulega orkunotkun og virkjanakosti, aðildarumsóknina að ESB og pólíska landslagið almennt.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .